Ísraelsher hefur endurheimt líkamsleifar Ran Gvili, síðasta ísraelska gíslsins í Gaza. Sameinuðu þjóðirnar segja tíma til kominn að vopnahléssamkomulagi sé framfylgt eftir meira en tvö ár af stríði og eyðileggingu.„Við fögnum fréttum af þessari þróun og vottum fjölskyldu hans samúð okkar. Það er algjörlega brýnt að vopnahlésfyrirkomulaginu á Gaza verði framfylgt að fullu,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Stephane Dujarric, talsmanni Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.Leitin að Ran Gvili hafði staðið yfir síðan vopnahlé tók gildi í október. Gvili var ungur lögreglumaður sem skotinn var til bana í hryðjuverkaárásinni 7. október 2023 og lík hans tekið með til Gaza. Alls var tvö hundruð fimmtíu og einn tekinn í gíslingu og nú hefur öllum verið skilað heim, lífs eða liðnum.