Mér þótti lífræn ræktun og búskapur alltaf áhugaverð. Þar sá ég tækifæri og hef nýtt þau,“ segir Ingólfur Guðnason garðyrkjumaður. Venju samkvæmt var hópur fólks á nýársdag af forseta Íslands sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu, sem hver og einn fær fyrir mikilvæg störf á tilteknum sviðum. Ingólfur var einn þeirra, það er fyrir frumkvöðlastörf í lífrænni ræktun og kennslu.