Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, ítrekar að Danir og Grænlendingar séu þeir einu sem geti tekið ákvarðanir um mál sem varða Danmörku og Grænland. Dönsk stjórnvöld séu í þéttu sambandi við Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO, sem sé fullmeðvitaður um afstöðu danska konungsríkisins en það sé gott og fullkomlega eðlilegt að framkvæmdastjóri bandalagsins ræði öryggi á Norðurslóðum við Bandaríkjaforseta. Þá fullyrðir varnarmálaráðherra Danmerkur að Rutte hafi ekki samið við Trump fyrir hönd landsins.