Að óbreyttu verður rekstri Heilsuleikskólans Ársólar hætt í sumar eftir að Reykjavíkurborg sagði upp leigusamningi vegna húsnæðis sem hýst hefur starfsemi leikskólans við Völundarhús í Grafarvogi. Foreldrar barna á leikskólanum lýsa miklum áhyggjum og „algjöru áfalli“ enda hafi ríkt almenn ánægja með starfsemi leikskólans og ekki hlaupið að því að fá nýtt leikskólapláss. Pláss er fyrir 54 börn á aldrinum níu mánaða til þriggja ára á leikskólanum samkvæmt upplýsingum á heimasíðu skólans.