Lögregla var kölluð til á Reykjavíkurflugvelli í kvöld þegar flugvél Icelandair frá Ísafirði kom inn til lendingar. Einn farþeganna um borð hafði sýnt af sér ógnandi hegðun og ákvað flugstjórinn því að kalla eftir aðstoð lögreglu. Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta hjá Icelandair, í samtali við fréttastofu. Hún segir að í verklagsreglum fyrirtækisins sé kveðið á um að óskað sé eftir aðstoð lögreglu ef farþegi sýni af sér ógnandi hegðun. Það hafi flugstjóri gert og því hafi lögregla tekið á móti farþeganum þegar flugvélin lenti. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var hlið flugvallarins opnað svo lögregla gæti keyrt beint upp að flugvélinni og tekið farþegann þegar dyr flugvélarinnar voru opnaðar. Flugvélin lenti á Reykjavíkurflugvelli rétt fyrir klukkan hálf átta