Fimmtugur karlmaður lést í umferðarslysinu á Miklubraut í Reykjavík í morgun. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningunni segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaki tildrög slyssins.Lögreglan óskar eftir vitnum að slysinu sem varð í morgun en maðurinn virðist hafa misst stjórn á mótorhjóli sínu á móti Skeifunni og hafnað á vegriði. Brautinni var lokað til vesturs um nokkurt skeið vegna slyssins en hefur verið opnuð á ný. Lögregla biður þau sem urðu vitni að slysinu um að hafa samband við lögregluna í síma 444 1000, en einnig má senda upplýsingar í tölvupósti á netfangið abending@lrh.is.