Ítalska heilbrigðisráðuneytið hefur gefið út rauða veðurviðvörun víðs vegar um landið um helgina. Viðvörunin nær til tuttugu og einnar borgar á Ítalíu um helgina, þar á meðal Rómar, Mílanó og Napolí, þar sem búist er við allt að 36 stiga hita á morgun. Þrjátíu og tveggja stiga hita er spáð í Feneyjum, þar sem stjörnum prýtt brúðkaup Jeffs Bezos og Lauren Sanchez er haldið um helgina. Bráðaliðar verða í viðbraðgsstöðu við helstu ferðamannastaði á Ítalíu og fólki ráðlagt að halda sig innandyra yfir hádaginn ef mögulegt er.Hitinn gæti náð um og yfir 40 stigum víðar við Miðjarðarhaf um helgina. Spáð er 42 stiga hita í Aþenu á morgun og um 40 stigum í Portúgal.