Þótt síðasta verðbólgumæling hafi verið „svekkjandi“ þá telja langflestir markaðsaðilar að peningastefnunefnd Seðlabankans muni horfa framhjá henni og lækka vextina aftur um 25 punkta, samkvæmt könnun Innherja, og benda sumir á að meirihluti nefndarmanna hljóti núna að líta til þess að meiri áhætta kunni að fylgja því að „lækka vexti of hægt en of hratt.“ Þá furða margir sig á því að viðvarandi sögulega hátt aðhaldsstig bankans sé ekki gagnrýnt í meira mæli og segja „ótrúlegt“ hversu lítið umtal sé um áhrifin af vaxandi óvissu og spennu í alþjóðlegu efnahagslífi.